STEFNUSKRÁ SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS Í FJALLABYGGÐ FYRIR SVEITARSTJÓRNARKOSNINGAR 2018

banner-lit

Rekstur sveitarfélagsins er afar traustur. Áframhaldandi ráðdeild í rekstri gefur okkur tækifæri til frekari uppbyggingar, bættrar þjónustu og síðast en ekki síst, færi á að lækka útgjöld heimilanna á næsta kjörtímabili.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Lækka fasteignaskatt um 10% að lágmarki
 • Hækka tekjuviðmið til afsláttar á fasteignaskatti fyrir öryrkja og eldri borgara svo að fleiri eigi kost á afslætti
 • Auka systkinaafslátt af vistunargjaldi leikskóla. Afsláttur fyrir annað barn hækkar úr 30% í 50%  og afsláttur fyrir þriðja barn hækkar úr 50% í 100%
 • Hækka frístundastyrk til barna og unglinga á aldrinum 4-18 ára úr 30.000 í 40.000
 • Auka niðurgreiðslu á skólamáltíðum til grunnskólanema um 10% að lágmarki
 • Halda áfram að gefa grunnskólabörnum námsgögn
 • Hafa frítt í sund og líkamsrækt fyrir öryrkja og eldri borgara

 

banner_umhv skip

Við ætlum að skipuleggja svæði, fegra umhverfi bæjarkjarnanna og auka nýtingu  opinna svæða með það fyrir augum að geta notið útiveru í fallegu og hreinu umhverfi.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Bæta ásýnd byggðakjarnanna með markvissu átaki í hreinsun og fegrun opinna svæða
 • Ljúka framkvæmdum á fráveitukerfi sveitarfélagsins
 • Halda áfram með göngustíg suður með Ólafsfjarðarvatni
 • Endurbæta opið svæði við MTR ásamt tengingu við grunnskóla og íþróttahús
 • Ljúka breytingum á miðbæ Siglufjarðar í samstarfi við Vegagerðina
 • Ljúka við gerð tjaldsvæðis á Siglufirði ásamt nýrri þjónustustöð í samstarfi við einkaaðila
 • Deiliskipuleggja lóðir fyrir hagkvæmar íbúðir norðan við Hús eldri borgara í Ólafsfirði og á malarvellinum á Siglufirði
 • Gera tjaldsvæðið á Ólafsfirði meira aðlaðandi og endurnýja aðstöðuhús fyrir tjaldgesti með sturtu og þvottaaðstöðu
 • Ljúka við endurbyggingu á vegi upp að golfskála í Skeggjabrekku
 • Halda áfram að endurbæta og malbika eldri götur, göngustíga og gangstéttir í sveitarfélaginu
 • Beita okkur fyrir því að yfirlögn á Aðalgötu í Ólafsfirði og Hvanneyrarbraut á Siglufirði ljúki á næstu tveimur árum í samstarfi við Vegagerðina, draga úr umferðarhraða í þessum götum ásamt aðgerðum í umferðaröryggismálum
 • Stuðla að bættum samgöngum milli byggðarkjarnanna
 • Skipuleggja miðbæjarsvæði í Ólafsfirði
 • Skilgreina svæði fyrir geymslugáma
 • Viðhalda eignum sveitarfélagins

 

banner_hvati

Aðgerðir sem hvetja til nýbygginga eru nauðsynlegar í Fjallabyggð

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Fella niður gatnagerðagjöld við þegar uppbyggðar götur, einungis innheimta tengigjald fyrir  fráveitu og vatnsveitu
 • Veita fjögurra ára greiðsludreifingu á gatnargerðargjöldum á lóðum þar sem gatnagerð er ólokið

 

banner_hafnir

Fjallabyggðarhafnir hafa verið í mikilli sókn síðustu ár og hafa góð tækifæri til frekari sóknar. Nái framtíðaráform um fiskeldi í Eyjafirði fram að ganga mun atvinnustarfsemi í Ólafsfjarðarhöfn aukast svo um munar. Mikil umsvif undirstrika þörfina á áframhaldandi uppbyggingu á hafnarsvæðum og bættri aðstöðu. Vaxandi fjölgun ferðamanna kallar á að hagsmunir ferðaþjónustu og hafna fari saman með skipulagi, fegrun og snyrtingu hafnarsvæða.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Deiliskipuleggja hafnarsvæðið í Ólafsfirði með tilliti til atvinnustarfsemi og gera svæðið snyrtilegt
 • Reka niður nýtt þil á suðursvæði á Siglufirði í samvinnu við Hafnarbótasjóð og gera svæðið snyrtilegt
 • Leita leiða til að auka tekjur af komum skemmtiferðaskipa

 

banner_itro tomst

Í Fjallabyggð er fjölbreytt og öflugt íþróttastarf sem við getum verið stolt af.  Standa þarf vörð um íþrótta- og tómstundastarf, efla forvarnir og stuðla að bættri lýðheilsu íbúa á öllum aldri í  heilsueflandi samfélagi.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Ljúka endurbótum á íþróttamiðstöð á Siglufirði. Breyta aðgengi og endurbæta mannvirkið þannig að það verði aðgengilegt fyrir alla
 • Byggja nýjan gervigrasvöll í Ólafsfirði, með lýsingu og bættri aðstöðu fyrir áhorfendur
 • Hækka styrk Fjallabyggðar til aðildarfélaga Ungmenna- og íþróttasambands Fjallabyggðar UÍF úr 6,5 miljónum í 10 miljónir
 • Halda áfram uppbyggingu íþróttamannvirkja í samstarfi við íþróttafélög og rekstraraðila

 

banner_fraedslum

Mikilvægt er að í skólum Fjallabyggðar verði áfram rekið metnaðarfullt og framsækið starf samkvæmt gildandi fræðslustefnu með áherslu á jöfn tækifæri, árangur, fjölbreytni og vellíðan nemenda. Stuðlað verði að öflugri skólaþróun og áframhaldandi samstarfi leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla sín á milli og við íþróttafélög og atvinnulíf.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Halda áfram að bæta og nútímavæða, kennslutæki og aðbúnað í leik- og grunnskóla
 • Ljúka við endurbætur á grunnskóla- og leikskólalóðum
 • Stuðla að samþættingu á skóla- og frístundastarfi fyrir 5.-10. bekk
 • Halda áfram að þróa Frístund fyrir 1.-4. bekk í samstarfi við íþróttafélög og tónlistarskóla
 • Efla forvarnir gegn áfengi- og vímuefnum með aukinni fræðslu í Grunnskóla Fjallabyggðar
 • Efla stoðþjónustu í leik- og grunnskóla enn frekar
 • Finna félagsmiðstöðinni Neon framtíðarhúsnæði
 • Halda áfram góðu samstarfi við Dalvíkurbyggð um rekstur Tónlistarskólans á Tröllaskaga
 • Innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í þjónustu fyrir börn og unglinga

 

banner_mmmal

Í Fjallabyggð er fjölbreytt menningar- og listalíf í mikilli sókn. Mikilvægt er að stuðla að frelsi til athafna, sjá til þess að listsköpun fái tækifæri til þess að vaxa og dafna og að menningartengd ferðaþjónusta eflist enn frekar.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Efla starfsemi Menningarhússins Tjarnarborgar og halda áfram að endurbæta húsnæði og tækjabúnað
 • Efla kynningu- og markaðssetningu á sveitarfélaginu
 • Efla upplýsingamiðstöðvar í sveitarfélaginu og gera upplýsingar um ferðaþjónustu, afþreyingu, menningu og þjónustu í Fjallabyggð aðgengilegri
 • Gera málverkasafn sveitarfélagsins sýnilegra bæði í stofnunum bæjarins og víðar um samfélagið í samstarfi við fyrirtæki
 • Styðja áfram við frekari uppbyggingu safna
 • Halda áfram að styðja við hátíðir og menningarviðburði í sveitarfélaginu

 

banner_vfmal

Mikilvægt er að auka öryggi og lífsgæði íbúa á grundvelli samhjálpar og styðja einstaklinga til ábyrgðar og virkrar þátttöku í samfélaginu. Koma þarf til móts við íbúa sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda með einstaklingsmiðuðum hætti þannig að þjónustan nýtist sem best og stuðli að auknum lífsgæðum. Efla nærþjónustu við íbúa og auðvelda þeim aðgengi að almennri og sértækri félagsþjónustu og tryggja að þeir upplifi sig sem hluta af samfélaginu.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Stuðla að því að þjónusta við eldri borgara sé fjölbreytt og miði að því að aldraðir geti búið með reisn á heimilum sínum sem allra lengst
 • Tryggja kvöld og helgarþjónustu fyrir þá sem þess þurfa
 • Efla skipulagt félagsstarf og dagdvöl fyrir eldri borgara og öryrkja með það að markmiði að draga úr eða rjúfa félagslega einangrun, efla eða viðhalda færni og stuðla að heilsueflingu
 • Halda áfram með endurbætur og stefnumótun á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hornbrekku og tryggja vistfólki gæða þjónustu í vistlegu heimilisumhverfi
 • Halda áfram með sameiningu minni íbúða í Skálarhlíð á Siglufirði
 • Styðja áfram við starfsemi félaga eldri borgara
 • Bæta aðgengismál fyrir fatlað fólk í sveitarfélaginu
 • Veita fötluðu fólki fjölbreytta og einstaklingsbundna þjónustu sem miðar að valdeflingu, sjálfstæði og þátttöku í samfélaginu
 • Vinna að stefnumótun í búsetumálum fyrir fatlað fólk
 • Beita okkur fyrir því að sjúkrabíll verði staðsettur í Ólafsfirði í náinni framtíð
 • Beita okkur fyrir því að Siglufjarðarflugvöllur verði gerður nothæfur fyrir sjúkraflug  til þess auka öryggi íbúa í Fjallabyggð

 

banner_atvinnumal

Fjölbreytt atvinnulíf þar sem einstaklingsframtak og samtakamáttur fær að njóta sín er forsenda frekari uppbyggingar og velferðar. Mikilvægt er að atvinnulífi verði búið gott starfsumhverfi og sveitarfélagið leggi sitt af mörkum til þess að bjóða góða grunnþjónustu, efla og verja þá atvinnustarfsemi sem fyrir er og búi í haginn fyrir ný störf.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Vinna að því að það komi laxeldi í Eyjafjörð og styðja við áætlanir um fiskeldi á landi. Ef af þessu verður mun það þýða um 100 ný störf
 • Hvetja opinberar stofnanir til þess að flytja verkefni, störf eða stofnanir í Fjallabyggð
 • Hlúa að fyrirtækjum og störfum sem til staðar eru
 • Búa í haginn fyrir hverskonar nýsköpun með góðri grunnþjónustu
 • Markaðssetja sveitarfélagið með tilliti til atvinnutækifæra og búsetu

 

banner_fbtfrt

Á síðustu árum hefur grunnur verið lagður að sókn og uppbyggingu í sveitarfélaginu og er það á þeim grunni sem við byggjum stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á fyrir kjörtímabilið 2018-2022. Stefnuskrá sem lýsir metnaði okkar til frekari uppbyggingar og bættrar þjónustu fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Með þínu atkvæði ætlum við að:

 • Sýna ábyrga fjármálastjórnun
 • Halda áfram að greiða niður vaxtaberandi skuldir
 • Auka aðgengi íbúa í Ólafsfirði að upplýsingum og þjónustu með því að deildarstjórar hafi viðveru í Ólafsfirði í viku hverri
 • Bjóða upp á fasta viðtalstíma við bæjarfulltrúa einu sinni í mánuði á Siglufirði og í Ólafsfirði

Hvað er fulltrúaráð?

Samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins mynda sjálfstæðisfélög í hverju sveitarfélagi sameiginlegt fulltrúaráð, sem fer með stjórn sameiginlegra mála félaganna á starfssvæðinu.

Ekki er þörf á fulltrúaráði ef aðeins eitt sjálfstæðisfélag er í viðkomandi sveitarfélagi.

Í Fjallabyggð eru tvö félög starfandi og því fer fulltrúaráð með sameiginleg mál þeirra eins og td. framboðslista til sveitarstjórnakosninga.

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Fjallabyggð er skipað 21 einstaklingi, 12 frá Siglufirði og 9 frá Ólafsfirði, þetta er í hlutfalli við íbúafjölda.

Stjórn fulltrúaráðs hafði umboð fulltrúa til að stilla upp lista til sveitarstjórnakosninganna í vor og var öll sú vinna undir stjórn Erlu Gunnlaugsdóttur formanns fulltrúaráðs.

Fulltrúaráð skal kosið árlega. Allir þeir sem eru skráðir í flokkinn geta gefið kost á sér til setu í fulltrúaráði.

Á aðalfundi fulltrúaráðs 15.feb sl. voru eftirtaldir aðilar kosnir:

Erla Gunnlaugsdóttir, formaður.

Hjalti Gunnarsson, varaformaður.

Anna María Elíasdóttir, ritari.

Þorbjörn Sigurðsson, meðstjórnandi

Hólmfríður Ó Norðfjörð, meðstjórnandi.

Jón Karl Ágústsson

Ragnar Aðalsteinsson

Gústaf Danílesson

Sigurbjörg Gunnólfsdóttir

Steingrímur Óli Hákonarson

Víbekka Arnardóttir

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir

Anna Hulda Júlíusdóttir

Agnar Þór Sveinsson

Hörður Ólafsson

Þorsteinn Þorvaldsson

Ásgeir Logi Ásgeirsson

Þorsteinn Ásgeirsson

Helga Helgadóttir

Gunnlaugur J. Magnússon

Svavar Berg Magnússon

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins

Framboðslisti Sjálfstæðisflokks í Fjallabyggð fyrir sveitastjórnarkosningar 2018 var samþykktur á fundi fulltrúaráðs mánudaginn 20.mars sl.

1.Helga Helgadóttir, þroskaþjálfi og bæjarfulltrúi
2. Sigríður Guðrún Hauksdóttir, verkakona og bæjarfulltrúi
3. Tómas Atli Einarsson, steinsmiður
4. Ólafur Stefánsson, fjármálastjóri
5. Hjördís Hanna Hjörleifsdóttir, skrifstofustjóri
6. Ingvar Á Guðmundsson, eldriborgari
7. Gauti Már Rúnarsson, vélsmíðameistari
8. Guðmundur Gauti Sveinsson, verkamaður
9. Sigríður Guðmundsdóttir, ritari
10. Díana Lind Arnarsdóttir, leiðbeinandi
11. Jón Karl Ágústsson, sjómaður
12. Svava Björg Jóhannsdóttir, húsmóðir
13. María Lillý Jónsdóttir, þjónustufulltrúi
14. Sverrir Mjófjörð Gunnarsson, sjómaður

Draumasveitarfélagið Fjallabyggð

Tímaritið Vísbending gerir árlega úttekt á sveitarfélögum og útnefnir „Draumasveitarfélag“ ársins. Nú er miðað er við ársreikninga síðasta árs þ.e. 2014. Litið er til ýmissa þátta t.d. fjárhags, skuldastöðu, íbúaþróunar og álagningu skatta á íbúa.

Fjallabyggð er þetta árið í 6.sæti og lækkar um eitt sæti en heildareinkun hækkar úr 6.9 í 7.1.

Í töflunni hér að neðan má einnig sjá þróun einkunar s.l. 3 ár og hvernig ábyrg fjármálastjórn á síðasta kjörtímabili hefur skilað Fjallabyggð í fremstu röð sveitarfélaga samkvæmt viðmiðum Vísbendingar.

Það er stórt hagsmunamál að búa í fjárhagslega sterku sveitarfélagi sem getur byggt upp innviði samfélagsins án skuldsetningar og stillt álögum á íbúa í hóf á sama tíma.

Undarlegar áherslur Halldórs Halldórssonar

Fyrir þá, sem úr fjarska, fylgdust með fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem haldin var í lok september þá virtist hún hefðbundin. Sveitarstjórnarfólk var nestað til heimferðar með hagtölum sem nota á sem grundvöll við gerð fjárhagsáætlana. (Sjá 410. fund bæjarráðs Fjallabyggðar)

Allt er nú gott og blessað með það. Það sem er miður gott á hefðbundinni dagskrá er árviss krafa um frekari heimildir til skattheimtu til handa sveitarfélögunum.  Ánægjulegra hefði verið að heyra Halldór Halldórsson oddvita Sjálfstæðismanna í borginni og formann Sambands ísl. sveitarfélaga leggja áherslu á bættan rekstur sveitarfélaganna og viðra hugmyndir sem leitt gætu til lækkunar útsvars og gjaldheimtu.

Er lausung í fjármálastjórn Bæjarstjórnar Fjallabyggðar?

 Á því sem næst hverjum fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar kemur setningin „Jafnframt er útgjaldaauka vísað til viðauka við fjárhagsáætlun 2015.“ fyrir í einhverjum lið, með slíkum vinnubrögðum er Bæjarstjórn Fjallabyggðar að innleiða lausung í fjármálastjórn sveitarfélagsins.

Sveitarstjórnarlögunum frá 2011 var einmitt stefnt gegn slíkum vinnubrögðum, hér fyrir neðan má lesa lög sambands íslenskra sveitarfélaga um viðauka við fjárhagsáætlun.

VIÐAUKAR VIÐ FJÁRHAGSÁÆTLANIR

– BYRÐI EÐA BETRUMBÓT?

BINDANDI ÁHRIF FJÁRHAGSÁÆTLANA, 63. GR. SVEITARSTJÓRNARLAGA

• Ákvörðun sem sveitarstjórn tekur skv. 1. mgr. 62. gr. um fjárhagsáætlun næstkomandi árs er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu sveitarfélagsins.

Óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun skv. 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina, sbr. 63. gr. – Þ.e. óheimilt er að samþykkja útgjöld nema viðauki liggi jafnhliða (eða áður) fyrir.

 

LÁGMARKSKRÖFUR TIL VIÐAUKA

Viðauki er ekki gildur nema hann feli einnig í sér útfærða ákvörðun um það hvernig þeim útgjöldum eða tekjulækkun sem gert er ráð fyrir verði mætt ( 2. mgr. 63. gr.)

• Gildir um hvers kyns ákvarðanir, samninga eða aðrar fjárhagslegar ráðstafanir sem hafa í för með sér breytingar á: tekjum, útgjöldum, skuldbindingum eða tilfærslur milli liða.

• Gildir einnig þótt heildarútgjöld eða heildartekjur breytist ekki vegna samþykktar hans.

Óheimilt er að veita fjárheimild en vísa útgjöldum til síðar gerðs viðauka.

 

Heimildir: FJÁRMÁLARÁÐSTEFNA SVEITARFÉLAGA 4. OKTÓBER 2013

Guðjón Bragason sviðsstjóri lögfræði- og velferðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga

Sjálfstæðisfélögin í Fjallabyggð senda frá sér ályktun vegna MTR

Heill og sæll Illugi.

Á sameiginlegum fundi sjálfstæðisfélaganna í Ólafsfirði og á Siglufirði, sem haldinn var á bæjarskrifstofunum á Siglufirði þriðjudaginn 19. maí kl. 20.30 var samþykkt eftirfarandi ályktun.

Ályktun;

Sjálfstæðisfélögin í Fjallabyggð mótmæla og harma boðaðan samruna ráðuneytisins á Menntaskólanum við Tröllaskaga, Menntaskólanum á Akureyri og Framhaldsskólans á Húsavík svo og þeim skorti á samráði sem verið  hefur af hálfu ráðuneytisins við töku þessarar ákvörðunar við bæjarfulltrúa og trúnaðarmenn flokksins á svæðinu.

MTR hefur frá stofnun skólans aukið lífsgæði íbúa sveitarfélagsins og verið það fjögegg sem sveitarfélagið vill hlúa að og standa vörð um. Skólinn starfar eftir nýrri námskrá og útskrifar nemendur á þremur árum. Af ört vaxandi hópi nemenda má sjá að skólinn stendur undir öllum væntingum hvað varðar sérstöðu, gæði náms, fjölbreytni og þarfir nemenda. Starfsbraut skólans hefur t.a.m. sýnt og sannað að skólinn kemur til móts við alla nemendur.  Fyrirhugaðar breytingar ráðuneytisins á rekstrarumhverfi skólans eru til þess fallnar að  ógna starfsemi skólans, lækka menntunarstig í sveitarfélaginu og ýta undir fólksfækkun. Sjálfstæðisfélögin skora á ráðherra að skoða nánar aðrar leiðir til að ná markmiði um nauðsynlegar úrbætur á framhaldsskólastigi t.a.m. aukið samstarf milli framhaldsskóla á svæðinu.

F.h. Sjálfstæðisfélags Ólafsfjarðar,      F.h. Sjálfstæðisfélags Siglufjarðar,

Ásgeir L. Ásgeirsson, formaður.            Hjalti Gunnarsson, formaður.

Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð hafa áhuga á samstarfi í málefnum fatlaða

Á 390. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var málefni Róta bs tekið fyrir, en bókun með þeirri umfjöllun er frekar innihalds lítil.

En á 268. fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar er sama mál til umfjöllunar og þar fylgir greinargerð með tillögunni, og því er hér birt efni um málefni Róta úr fundargerðum Dalvíkurbyggðar.

15. 201410286 – Málefni Róta bs.; málefni fatlaðra.
Til máls tók:
Bjarni Th. Bjarnason sem leggur fram eftirfarandi tillögu:

„Samkvæmt 4.gr laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59 frá 1992 þarf hvert þjónustusvæði að ná að lágmarki 8.000 íbúum en hægt er að fá undanþágu frá þessu á grundvelli landfræðilegra aðstæðna. Mikið óhagræði fylgir slíkum vegalengdum. Þjónustusvæði Róta bs. telur ríflega 11.000 íbúa. Sveitarstjórn samþykkir tillögu þess efnis að veita sveitarstjóra heimild til að senda inn beiðni um undanþágu til ráðherra skv. ákvæðum 4.gr. laga nr. 59 frá 1992.“

Greinargerð með tillögunni:
„Málefni Róta bs. hafa verið í brennidepli hjá sveitarstjórnarfólki í Dalvíkurbyggð síðustu misserin vegna slæmrar stöðu sem uppi er í málefnum Róta bs. Undirritaður sem hefur verið í stjórn Róta frá því í september sl. og lýsir yfir miklum áhyggjum vegna rekstrarvanda Róta bs. Hallinn árið 2014 verður líklega á bilinu 60-80 milljónir og stefnir í 100 milljónir í ár og verður velt yfir á sveitarfélögin. Ljóst er að það rekstrarmódel sem Rætur bs. búa við virkar ekki eins og það þarf að gera. Margar ástæður mætti telja til, s.s. miklar vegalengdir á starfssvæði Róta bs., sem Jöfnunarsjóður virðist ekkert tillit taka til, og lítil samlegðaráhrif í þjónustu við fatlaða á milli byggðarlaga. Sú staða sem uppi er í byggðasamlaginu er með öllu óviðunandi fyrir aðildarsveitarfélögin.
Samkvæmt 4.gr laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59 frá 1992 þarf hvert þjónustusvæði að ná að lágmarki 8.000 íbúum en hægt er að fá undanþágu frá þessu á grundvelli landfræðilegra aðstæðna. Þjónustusvæði Róta bs. telur ríflega 11.000 íbúa. Sveitarstjórnarfólk í Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð hefur rætt um það sín á milli hvort nú ætti að láta reyna á slíka beiðni um undanþágu sem nefnd er í 4.gr. ofangreindra laga enda er klárlega um samlegðaráhrif að ræða í málefnum fatlaða á milli sveitarfélaganna.
Skrefin sem þarf að stíga eru í fyrsta lagi að sækja um undanþágu og það þá gert í samfloti með Fjallabyggð sem framtíðarsamstarfsaðila um málefni fatlaða. Ef undanþága er veitt þá þarf sveitarstjórn að ákveða um úrsögn úr Rótum bs. og þarf sú úrsögn að gerast með 6 mánaða fyrirvara og miðast við áramót samkvæmt samþykktum Róta bs.“

Börnin hoppuðu af kæti

KF bauð uppá á stórkostlega skemmtilega dagskrá fyrir börn í Fjallabyggð 29.apríl sl. Mikill fjöldi barna hoppaði og skoppaði um íþróttahúsið í Ólafsfirði með Latabæjarhetjunni.
Guðný Ágústsdóttir, áhugaljósmyndari tók þessa mynd ásamt fjölda annara, en hún er mjög dugleg að mæta á viðburði og mynda.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar bauð öllum börnum Fjallabyggðar að koma í íþróttarmiðstöðina í Ólafsfirði á miðvikudaginn 29.apríl sl. og fylgjast þar með hetjunni úr Latabæ, Íþróttaálfinum sem dróg börnin með sér í þrautir og æfingar.  Ekki var annað að sjá en að krakkarnir kynnu vel að meta þessa heimsókn íþróttaálfsins.  Að lokum var boðið upp á íþróttanammi.

KF á skilið mikið þakklæti fyrir þessa skemmtilegu uppákomu